Hollenski bjórframleiðandinn Heineken hefur birt árshlutauppgjör fyrir þriðja ársfjórðung. Þar kemur fram að hagnaður fyrirtækisins og sölutölur drógust saman á tímabilinu.

Hagnaður fyrirtækisins nam 460 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi en var um 483 milljónir á sama tíma á síðasta ári. Þá drógust sölutölur fyrirtækisins saman um 1,5% og námu tekjur vegna sölu um 5,1 milljarði evra á tímabilinu.

Ástæðuna fyrir samdrætti í sölu segir Heineken vera veðurbreytingar í heiminum og óvenjumikil rigning hafi til dæmis verið í Evrópu að undanförnu. Það hafi bitnað á bjórdrykkju Evrópubúa og tekjur í Austur- og Vestur-Evrópu hafi dregist saman um 8,5% og 4,1%. Hins vegar hafi salan aukist í Asíu og Afríku.