Hlutabréf í Asia Pacific Breweries (AFB) hækkuðu í verði um 17% eftir að bjórframleiðandinn Heineken gerði kauptilboð í alla hluti fyrirtækisins sem ekki eru þegar í eigu Heineken. AFB er ein stærsta ölgerð Asíu og framleiðir meðal annars Tiger bjórinn. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins BBC í dag.

Heineken bauðst til að greiða 50 dollara fyrir hvern hlut en eigendur hlutanna eru fyrirtækin Fraser og Neave sem bæði eru skráð í Singapore. Í sameiginlegri tilkynningu fyrirtækjanna segir að tilboðið frá Heineken sé nú skoðað en frestur til að svara rennur út 27. júlí næstkomandi.

Stærsta ölgerð Taílands, ThaiBev, hefur einnig boðið í hlutina.