Jóhann Gunnar Stefánsson framkvæmdastjóri Háfells segir í Viðskiptablaðinu í dag að vinnu miði vel áfram við Héðinsfjarðargöng þessa dagana. Sprengingum og greftri Héðinsfjarðarganga lauk með formlegu gegnumslagi samgönguráðherra fimmtudaginn 9. apríl sl. Heildarlengd ganga í bergi var þá orðin 10.570 metrar.

Bergstyrkingum í göngum frá Héðinsfirði til Siglufjarðar lauk einnig á sama tíma. Í þessari viku lýkur vinnu við bergstyrkingar í Ólafsfjarðarleggnum og sprautusteypu. Þá verður hafin vinna við undirstöður vegstæðisins í þeim legg og að sprengja fyrir lagnaskurði. Væntanlega hefst svo vinna við vatnsklæðingar í Ólafsfjarðarleggnum í lok júlí.

„Það er búið að steypa vegskála í Siglufirði og búið að steypa um helming vegskálans vestanmegin í Héðinsfirði og búið að steypa undirstöður undir þann þriðja. Einnig er búið að steypa upp brúna í Héðinsfirði. Þá er verið að klára pípulögn inni í Siglufjarðargöngum og lagningu á háspennulögnum og fráveitu. Við erum nú að vinna við að rífa upp gamalt malbik niðri á Siglufjarðarvegi. Síðan er meiningin að malbika frá Siglufjarðarvegi í gegnum Siglufjarðargöngin og í Héðinsfjörð fyrir mánaðamótin ágúst - september."

Jóhann segir að áherslan nú sé að klára alla þá útivinnu sem hægt er fyrir veturinn. Búið sé að leggja fínefni á veginn Siglufjarðarmegin og klára uppbyggingu vegarins í Héðinsfirði og aðeins eftir að leggja á hann fínefni og malbik. Þá er lokið fyllingavinnu í Ólafsfirði en þar er um mun minni vegagerð að ræða.

Þó lokið verði við að malbik alla leið frá Siglufirði yfir í Héðinsfjörð í haust, þá segir Jóhann að vegurinn verði áfram lokaður fyrir almenningi. Mikil vinna sé t.d. eftir við lagnir, raflýsingu og loftræstingu í göngunum og fleira svo svæðið verði áfram skilgreint sem vinnusvæði.

Segir Jóhann að ýmis aukaverk falli líka til eins og lagning á háspennustreng fyrir RARIK í jörð frá göngum niður í Siglufjörð.

Hann segir að talsvert hafi fjölgað í Háfellshópnum að undanförnu og á þeirra vegum séu nú um 40 manns að störfum. Tékkunum í sprengiteyminu hjá Metrostav hefur aftur á móti fækkað og eru þeir nú um 30 talsins.

Gert er ráð fyrir að göngin verði fullbúin og tekin í notkun síðsumars 2010. Er það rúmu hálfu ári seinna en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir en það orsakast af mun meiri vatnsleka í göngunum en reiknað var með.