Tilkynnt hefur verið um sameiningu bandarísku matvælarisanna Heinz og Kraft Foods, en við sameininguna mun verða til þriðja stærsta fyrirtæki heimsins á þessu sviði. BBC News greinir frá.

Núverandi hluthafar í Heinz munu eiga 51% hlut í hinu sameinaða félagi, en hluthafar Kraft Foods fá 49% hlut. Samningurinn var gerður fyrir tilstilli stærstu eigenda Heinz; brasilíska fjárfestingafyrirtækisins 3G Capital, og milljarðamæringsins Warren Buffett í gegnum Berkshire Hathaway.

„Þetta eru viðskipti að mínu skapi; að sameina tvö heimsklassa fyrirtæki og skapa verðmæti fyrir hluthafa. Ég er spenntur fyrir þeim tækifærum sem bjóðast við sameininguna,“ sagði Warren Buffet þegar tilkynnt var um samninginn.

Hluthafar Kraft Foods munu fá sérstaka greiðslu sem nemur 16,5 dölum á hlut samkvæmt samningnum. Mun greiðslan í heildina nema 10 milljörðum dala og verður fjármögnuð af Berkshire Hathaway og 3G Capital.