Heitar umræður hafa skapast á Facebook síðu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, eftir að Bjarni lýsti yfir stuðningi við þingmenn flokksins í fjárlaganefnd Alþingis sem vilja að gengið verði að núverandi Icesave samkomulagi.

„Þjóðin reis upp gegn Icesave samningi ríkisstjórnarinnar og felldi hann með 98% greiddra atkvæða. Það mun ekki gleymast hverjir voru tilbúnir til að samþykkja þá afarkosti og taka áhættu upp á 500 milljarða. Það er himinn og haf á milli þess samnings og nýja samkomulagsins. Ég hef ávallt stutt viðræður um lausn á málinu og tel rétt að ganga frá því eins og það liggur nú fyrir,“ skrifaði Bjarni á síðu sína fyrir rúmri klukkustund.

Þegar þetta er skrifað hafa tæplega 70 ummæli verið skrifuð við færslu Bjarna og í allflestum tilvikum er um að ræða Sjálfstæðismenn sem eru ósammála afstöðu formannsins.

Þórey Vilhjálmsdóttir, starfsmaður Valhallar og tengdadóttir Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, kemur Bjarna til varnar á síðunni. „Góð niðurstaða Bjarni, þið eruð samkvæm sjálfum ykkur og flokknum til sóma,“ skrifa Þórey.

Tæplega 20 manns hafa þó „lækað“ færslu Bjarna. Þar á meðal er Friðjón R. Friðjónsson, aðstoðarmaður Bjarna, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð, Guðrún Ögmundsdóttir, fyrrv. þingmaður, Einar Páll Tamini, lögfræðingur, Þórður Guðjónsson, knattspyrnumaður og Sigríður Hallgrímsdóttir, forstöðumaður samskiptasviðs Sjálfstæðisflokksins.

Sjá Facebook síðu Bjarna.