„Það liggur við að ég biðji ráðherra og Samgöngustofu afsökunar á að þau séu sett í þessa stöðu,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, í umræðum um fundarstjórn Alþingis á þingi rétt í þessu. Ástæðan fyrir umræðunni er sú að skýrsla ríkisendurskoðanda, um þátt Samgöngustofu og Isavia ohf. í falli Wow air, lak til fjölmiðla áður en þingið hafði fjallað um hana.

Upphafsmaður umræðunnar var Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Sagði hann að ýmsar skýrslur bærust þinginu og að á þeim væri trúnaður þar til þær hefðu verið afgreiddar af viðeigandi nefndum. Það verklag var tekið upp í samráði við ríkisendurskoðanda en áður höfðu skýrslur verið gerðar opinberar um leið og gerð þeirra lauk.

„Á skýrslunni er trúnaður en einstakir þingmenn hafa getað farið í fjölmiðla og tjáð sig um hana. Ég hef ekki séð hana, hún hefur ekki borist ráðuneytinu eða umræddum stofnunum sem vilja tjá sig um hana. Við höfum vissulega séð hana á vinnslustigi en ekki endanlega afurð,“ sagði Sigurður Ingi. Bagalegt væri að skýrslur sem þessar myndu leka út.

„Já, ég hef tjá mig um það sem birst hefur úr skýrslunni í fjölmiðlum,“ sagði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Benti hún á að hún væri hvorki í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd né umhverfis- og samgöngunefnd, það er þeim nefndum sem hafa skýrsluna undir höndum, heldur læsi hún fréttir. „Skyndilega í gær birtust fréttir, ítarlegar fréttir, um efni skýrslunnar. Ég hvet hæstvirtan ráðherra til að lesa fjölmiðla. Það er mjög margt þar sem hann ætti að líta á og taka alvarlega.“

Ráðherra hækkaði róminn

„Það er mjög miður að þingmenn geti ekki virt trúnað sem er nauðsynlegur, í fáeina daga, sem er nauðsynlegur til að viðhalda verklagi [sem ákveðið var í samráði við ríkisendurskoðanda]. Þingið er sjálfu sér verst ef það stendur sig ekki í stykkinu hvað þetta varðar,“ sagði forseti þingsins í fyrri ræðu sinni í umræðunni.

„Ég held við þurfum að breyta hér verklagi, við höfum heyrt hér þingmenn gera grein fyrir því að þetta sé bundið geðþóttaákvörðunum eða sé svo ruglingslegt að það er frekar regla en undantekning að þau mál, sem eru bundin trúnaði þau leka í fjölmiðla,“ sagði Jón Gunnarsson Sjálfstæðisflokki.

„Ég vil minna á að hér eru menn meira og minna að tala um þingið og þeirra aðgang. Skýrslur ríkisendurskoðanda fjalla gjarnan um allt aðra en þingmenn en þeir aðilar fá engan aðgang fyrr en hún er birt. Þeir geta ekki tjáð sig. Ég verð að segja að það er sérkennilegt ef ég á að tala við fjölmiðla um hluti sem þeir hafa dregið úr skýrlsu, ég hef ekki fengið að sjá. Það er grafalvarlegt mál að þingmenn tali um sem þeir hafa fengið aðgang að en engir aðrir hafa fengið að sjá,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson í annarri ræðu sinni og hækkaði róminn talsvert. Kallaði fyrrnefnd Helga Vala þá úr sæti sínu að hún hefði fengið aðgang að upplýsingunum í fjölmiðlum.

„Ég vil svara hæstvirtum ráðherra þannig að hvernig ég skil mjög vel að hann og undirstofnanir hans séu vera ósátt við þá stöðu sem þeir eru settir í. Það liggur við að ég biðji hæstvirtan ráðherra afsökunar fyrir hönd Alþingis að vera sett í þessa stöðu,“ sagði Steingrímur.

Sagði hann ræður þingmanna, þar sem orðum á borð við leyndarhyggju var fleygt fram, ættu ekki við. Þetta snerist aðeins um verklag, það er að þingið fái skýrslu frá ríkisendurskoðanda, fái kynningu á þeim frá honum og ræði í nefndum áður en þær eru „gerðar opinberar samtímis gagnvart öllum í landinu. Líka fjölmiðlum því þeir eiga ekki að fá skýrsluna fyrr en allir aðrir.“