Bílaumboðið Hekla sem er umboðsaðili Volkswagen á Íslandi hefur birt upplýsingar um heildarfjölda bíla á Íslandi sem innihalda hugbúnað sem hannaður var til að sniðganga útblástursreglur.

Heildarfjöldi bíla á Íslandi sem málið snertir eru 3.647, þar af 1.129 Volkswagen fólksbílar, 348 Volkswagen atvinnubílar, 316 Audi bílar og 1854 Skoda bílar. Samkvæmt fréttatilkynningu eru það bílar sem eru framleiddir á árunum 2008 til 2015 og innihalda díselvél af gerðinni EA 189.

Í fréttatilkynningunni frá Helku segir að „Volkswagen Group leggur allt kapp á að finna lausn á málinu og hefur kynnt aðgerðaráætlun sem felur í sér að Volkswagen og önnur merki samstæðunnar munu í október birta yfirvöldum tæknilegar lausnir og framkvæmd þeirra og leita samþykkis á þeim fyrir viðkomandi bílgerðir. Þegar þýsk yfirvöld hafa samþykkt tæknilegu lausnirnar munu þær verða útbúnar til innleiðingar innan alls EES svæðisins. Í kjölfarið verður haft samband við hvern og einn viðskiptavin sem málið snertir og hann upplýstur um hvernig hægt sé að bæta losunarbúnað bílsins.“

Hekla ítrekar að ökutækin eru fullkomlega örugg til aksturs, málið varði einungis þær mengandi lofttegundir sem losaðar eru.