Ákveðið hefur verið að bjóða til sölu allt hlutafé í bifreiðaumboðinu Heklu, en fyrirtækið er í eigu Arion banka. Verður fjárfestum, sem uppfylla skilyrði þátttöku, gefinn kostur á að fá upplýsingar um félagið og gera tilboð í kjölfarið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka.

Þar kemur fram að gert sé ráð fyrir að selja allt hlutaféð í einu lagi, söluferlið verði opið öllum fagfjárfestum, sem og einstaklingum og lögaðilum er að mati seljanda hafa viðeigandi þekkingu og nægan fjárhagslegan styrk og að seljandi áskilji sér rétt til þess að takmarka aðgang að söluferlinu, m.a. vegna samkeppnisreglna og annarra lagalegra hindrana.

Þá kemur fram að velta bílasviðs Heklu nam um 5,5 milljörðum króna árið 2009 og er markaðshlutdeild um 18,5% af sölu nýrra bíla það sem af er árinu 2010, sem er sambærilegt við markaðshlutdeild síðustu 5 ára að jafnaði.