*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 28. ágúst 2008 13:35

HEKLA frumsýnir Passat CC

Ritstjórn

Laugardaginn 30. ágúst frumsýnir HEKLA nýjan Volkswagen Passat CC.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heklu en samkvæmt henni hefur Volkswagen framleitt ríflega 15 milljónir Passat og Passat Variant bifreiða.

Samkvæmt tilkynningunni kynnir Volkswagen nú til sögunnar þriðja afbrigði bílsins - Passat CC.

Í boði verða 140, 160 og 300 hestafla bensínvélar og 140 og 170 hestafla TDI dísilvélar.

Yfirbygging bílsins er með algjörlega sjálfstæðri hönnun og að innan er hann með sportlegum sætum, aflrás sem virkilega kveður að og tæknibúnaði, „sem sæmir að öllu leyti bíl í lúxusflokki,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að dæmi um nýjungar sem eru fáanlegar í Volkswagen Passat CC eru akreinavari, sem grípur sjálfvirkt inn í stýringu á bílnum þegar búnaðurinn skynjar að bíllinn gæti sveigt af akrein, án þess að ökumaður ætli sér það, fjöðrunarstýring með aðlögun, sem lagar sig stöðugt að vegi og akstursskilyrðum, loftfrískun í sætum, ContiSeal hjólbarðar, sem loka sjálfkrafa götum sem myndast af völdum oddhvassra hluta og svo mætti lengi telja.

Sýningin hefst í sýningarsal Volkswagen, HEKLU-húsinu, Laugavegi 174, kl. 10:00 á laugardaginn og stendur yfir til kl. 16:00.

Jafnframt verða til sýnis bifreiðar, sem notaðar verða við heimsfrumsýningu á  nýjum Volkswagen Golf hér á Íslandi í september. Má þar nefna Pheaton, Passat R36, Eos, Touareg R50 og Multivan Business Edition.