Allir þeir sem komið hafa fyrir dóminn og setið fyrir svörum í vitnaleiðslum í Al Thani-málinu hafa lýst því yfir að þeir hafi fagnað sölu á 5% hlut í Kaupþingi til Al Thanis síðla árs 2008. Morgunblaðið segir að verulega hafi dregið úr gleði nokkurra vitna þegar þeir fengu síðar upplýsingar um að kaupin hefðu að fullu verið fjármögnuð af bankanum sjálfum. Á sama tíma vissu ekki margir af 50% sjálfskuldarábyrgð Al Thanis á kaupverðinu.

Blaðið segir Guðmund Þ. Guðmundsson, framkvæmdastjóra fjárstýringar Kaupþings, hafa vonast til þess að erlendur gjaldeyrir myndi koma inn í landið. Hann hafi orðið fyrir vonbrigðum þegar hann áttaði sig á að svo var ekki.

Þá segir í umfjöllun blaðsins að í aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur hafi komið fram að aldrei hafi tíðkast að gefa upplýsingar með tilkynningum um það hvernig viðskipti voru fjármögnuð. Mörg vitna hafi hins vegar gengið út frá því að þessi efnaði maður væri að koma með peninga til landsins og hafi þeir því fagnað þeim.