*

þriðjudagur, 4. ágúst 2020
Innlent 18. febrúar 2020 19:02

Heldur 800 þúsund krónum í laun á dag

Stjórnarformaður Glitnis fær áfram fjórar milljónir fyrir viku vinnu eða um 100 þúsund krónum á tímann. Nær engin starfsemi er í félaginu.

Ingvar Haraldsson

Stjórnarmenn Glitnis Holdco verða áfram með um 700 til 800 þúsund krónur í laun á dag. Þetta kemur fram í tillögum fyrir aðalfund Glitnis sem fer fram eftir viku. Stjórn félagsins heldur óbreyttum launakjörum milli ára.

Stjórnarformaður Glitnis, Mike Wheeler, fær 30 þúsund evrur greiddar fyrir árið, um 4,1 milljón króna, eða um 820 þúsund krónum á dag. Hann fær greitt aukalega 5 þúsund evrur, um 690 þúsund krónur fyrir hvern dag þurfi hann að vinna meira en fimm daga á ári. Þá fá almennir stjórnarmenn, Steen Parsholt og Tom Grøndahl, 20 þúsund evrur hvor eða um 2,75 milljónir króna, um 690 þúsund krónur á dag. Þeir fá fimm þúsund evrur greiddar fyrir hvern dag umfram fjóra daga á ári. 

Tímakaup Wheeler nemur því um 100 þúsund krónum miðað við átta tíma vinnudag fimm daga á ári en Parsholt og Grøndahl um 85 þúsund krónum á tímann miðað við fjögurra daga vinnu. 

Launakostnaður stjórnar lækkar úr um hálfri milljón evra, nær 70 milljónum króna í um 113 þúsund evrur, um 15 milljónir krróna milli áranna 2018 og 2019. Þeir hafa því þurft að vinna mun minna umfram vinnuskylduna milli ára.

Rekstrarkostnaður Glitnis nam um 850 þúsund evrum en á móti kom bakfærsla á áður útlögðum kostnaði upp á 619 þúsund evrur en ekki er útskýrt hvað var á bak við þá færslu. 

Lítil breyting var á eignum Glitnis Holdco milli ára, en félagið hafði losað nær allar eignir sínar. Eignir félagsins lækka úr 4,8 milljónum evra í 4 milljónir evra, sem samsvarar um hálfum milljarði króna, sem er nær alfarið reiðufé. Félagið sagði upp öllum starfsmönnum sínum árið 2018 og enginn starfsmaður vann fyrir félagið í fyrra. Ekkert var greitt út til eigenda félagsins á síðasta ári.

Lögbann á Stundina og stefna frá þrotabúi

Félagið var í kastljósinu eftir að hafa farið fram á lögbann á umfjöllun Stundarinnar byggða á gögnum innan úr Glitni, skömmu fyrir Alþingiskosningarnar árið 2018. Lögbanninu var endalega hnekkt í Hæstarétti í mars 2019.

Í október 2018 stefndi Mainsee Holding ehf., þrotabú fjárfestingafélags sem var í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar og Róberts Wessman. Félagið var lýst gjaldþrota árið 2018 og fór skiptastjóri þess fram á að rifta ætti samningi sem félagið gerði árið 2011. Glitni bæri að greiða Mainsee Holding ríflega milljarð króna vegna þessa. 

Stikkorð: Glitnir Holdco