Flestir hlutabréfamarkaðir í Evrópu hækkuðu lítillega í dag en höfðu þó hækkað meira fyrr í dag. Seinni part dags fóru markaðir að lækka og segir Reuters fréttastofan að áhyggjur af frekari samdrætti bandaríska hagkerfisins leiði til lækkunar markaða.

„Allar hagtölur frá Bandaríkjunum eru neikvæðar og það virðist ekkert ætla að skána,“ segir Georgina Taylor, greiningaraðili hjá Legal & General í samtali við Reuters.

FTSE 300 vísitalan hækkaði um 0,1% en hafði fyrr í dag hækkað um 1,1%. Vísitalan hefur þó lækkað um 8,2% það sem af er ári.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,3%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 0,3% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 0,2%.

Í París stóð CAC 40 vísitalan í stað annan daginn í röð en í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 0,7%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 0,1%, í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 1% líkt og í Osló þar sem OBX vísitalan hækkaði um 1%.