Francois Hollande, forsætisráðherra Frakka, varði ofurskatt ríkisstjórnarinnar á fólk í hærri tekjuflokkum í fyrsta áramótaávarpi sínu í gærkvöldi. Þetta var fyrsta ávarp forsetans, sem var kosinn í maí og var skattlagningin eitt af helstu kosningamálum hans.

Skattlagningin hefur verið harðlega gagnrýnd í Frakklandi, ekki síst hafa þeir látið í sér heyra sem fá hann á sig. Þar á meðal er franski stórleikarinn Gerarde Depardieu, sem nýverið lýsti því yfir að hann ætli að flytja yfir landamærin til Belgíu þar sem skattar eru lægri. Franski ofurskatturinn hljóðar upp á 75% álagningu á tekjur yfir einni milljón evra, jafnvirði tæpra 170 milljóna íslenskra króna.

Forsetinn lét það ekki á sig fá þótt fransku stjórnlagadómsstóll úrskurðaði rétt fyrir áramót að skattlagningin bryti í bága við stjórnarskránna og lagði áherslu á að um réttlætismál væri að ræða. Á hinn bóginn sagði hann möguleika á að ofurskatturinn verði endurskoðaður.

„Þeir sem eiga mest munu alltaf biðja um meira,“ sagði Hollande í ávarpinu.

Á vef breska dagblaðsins Telegraph kemur fram að Depardieu er síður en svo sá eini sem ætli að taka föggur sínar og fara til að bjarga veskinu. Haft er upp úr frönskum fjölmiðlum að tvöfalt fleiri franskir ríkisborgarar hafi tilkynnt um flutninga yfir til Belgíu á nýliðnu ári en árið 2011. Þeir voru 60 þá en 128 í fyrra.