Martin Winterkorn verður áfram forstjóri þýska bílaframleiðandans Volkswagen, en stjórn fyrirtækisins hefur framlengt ráðningarsamning hans og hrósað honum fyrir þann árangur sem náðst hefur í rekstri fyrirtækisins. Litið er á þetta sem ósigur fyrir stjórnarformanninn Ferdinand Piech, sem fyrir skömmu sagðist hafa fjarlægst Winterkorn. Í kjölfarið urðu vangaveltur miklar um framtíð Winterkorn hjá fyrirtækinu.

Sex stjórnarmenn lögðu til framlengingu á ráðningarsamningnum. Eftir að Piech lét áðurnefnd ummæli falla sagði frændi hans Wolfgang Porsche, sem einnig situr í stjórn Volkswagen, að þar hefði Piech aðeins verið að tjá persónulega skoðun sína og að hún endurspeglaði ekki afstöðu fjölskyldunnar til Winterkorn. Piech og Porsche fjölskyldurnar, sem eru skyldar, eiga samanlagt 51% hlut í Volkswagen.