Innlánstryggingar gætu reynst mörgum hagkerfum dýrt spaug fari svo að bankar viðkomandi ríkja hrynji. Á meðal þessara ríkja eru Bretland, Belgía og Frakkland en í þessum löndum eru eignir fimm stærstu fjármálafyrirtækja landsins um 5-6 sinnum stærri en hagkerfið. Þetta kemur fram í aðsendri grein Róberts Helgasonar fjármálasérfræðings í Viðskiptablaðinu í vikunni.

„Fjármagnseigendur eru í auknum mæli að átta sig á áhættunni sem leynist í innlánum hjá fjármálastofnunum. Til dæmis á Írlandi og í Grikklandi fer þeim aðilum hratt fækkandi sem vilja taka áhættuna á að innlánstrygging fjármálastofnana þar standi ef á hana reynir. Innlán í Grikklandi hafa lækkað nær samfellt um langt skeið og eru nú um 23% lægri en fyrir tveimur árum.

Að auki er raunveruleg hætta á að innan ríkis sem ákveður að víkja úr evrusamstarfinu og taka upp eigin mynt verði öllum innlánum (og öðrum skuldum) umbreytt í þá nýju mynt. Fjármagnseigandi með innlán í evrum á bankareikningi á Ítalíu gæti staðið uppi með reikning fullan af verðminni ítölskum lírum, og takmarkanir á fjármagnsflæði,“ segir m.a. í grein Róberts.

Grein Róberts Helgasonar