Fram kom í Dagens Nyheder í gær að KB banki geti verið líklegur kaupandi að internetbankanum Skandiabanken. Einnig er bent á Den Danske Bank sem líklegan kaupanda en kaupverð bankans er talið nema 2-3 milljörðum SEK (19,3-29 ma.kr). Sögusagnirnar koma í kjölfar þess að forstjóri Skandiabanken hætti störfum þann 28. júní. Skandia, sem er eigandi Skandiabanken, þvertekur hins vegar fyrir þennan orðróm og segir að bankinn sé mikilvægur hluti í starfsemi þess og sé því ekki til sölu.

Á þessu er vakin athygli í Vegvísi Landsbankans en þar er bent á að í frétt Dagens Nyheder komi fram að KB banki hafi ekki viljað tjá sig um þennan orðróm.

Skandiabanken er með starfsemi í Svíþjóð, Danmörku og Noregi. Viðskiptavinir hans eru 800.000 talsins en þar af er helmingur þeirra Svíar. Hagnaður bankans á síðasta ári var 154 milljónir SEK (1,5 ma.kr.).