Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og einn eigenda Plain Vanilla, fékk tæpar 583 milljónir króna í sinn hlut þegar fjárfestingarfélögin Tencent Holdings og Sequoia Capital lögðu hugbúnaðarfyrirtækinu til 22 milljónir dala í hlutafé í lok árs 2013.

Fljótlega eftir að Sequioa og Tencent lögðu félaginu til fjármagn fóru að berast tilboð um að kaupa það. Eitt þeirra hafi til að mynda hljóðað upp á 100 milljónir Bandaríkjadala frá Zynga. Þorsteinn segir að á erfiðum dögum hafi hann hugsað til þessa tilboðs og velt því fyrir sér hvort rétt hefði verið að þekkjast boðið. „En undanfarna mánuði þegar þessari þróun á nýju uppfærslunni okkar hefur miðað áfram held ég að við höfum tekið fullkomlega rétta ákvörðun um að selja ekki félagið á sínum tíma,“ segir hann.

Í sjónvarpsviðtali á Fox Business fyrr á þessu ári var Þorsteinn spurður að því hvort hann myndi selja félagið fyrir 100 milljónir dala. Hann sagði svo ekki vera, en þegar þáttastjórnandinn hækkaði boðið upp í 1 milljarð dala sagði hann að slíkt tilboð þyrfti að íhuga vel.“ Spurður hvort það hafi breyst segir hann svo ekki vera og ekki væri hægt að slá milljarðinn burt án þess að hugsa sig vel um.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .