*

fimmtudagur, 15. apríl 2021
Fólk 22. mars 2021 13:44

Helena stýrir Hafró í Neskaupstað

Tveir starfsmenn hafa verið ráðnir á nýstofnaða starfsstöð Hafrannsóknastofnunar í Neskaupstað.

Ritstjórn
Helena Gallardo Roldán, starfsstöðvarstjóri Hafrannsóknastofnunar í Neskaupstað, og Hrefna Zoëga, rannsóknarmaður við stöðina.
Aðsend mynd

Helena Gallardo Roldán er nýr starfsstöðvarstjóri og sérfræðingur á nýopnaðri starfstöð Hafrannsóknastofnunar í Neskaupstað. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stofnunarinnar.

Helena er með grunnháskólamenntun í sjávarlíffræði og mastersgráðu á sviði fiskeldi og fiskveiða með áherslu á sjávarauðlindir og sjálfbærni. Hún hefur meðal annars starfað við hafrannsóknir hjá Haffræðistofnun Spánar. Þá hefur hún gegnt störfum tengdri ferðaþjónustu á Íslandi í tæp tvö ár, meðal annars við hvalaskoðun.

Hrefna Zoëga hefur verið ráðin í starf rannsóknamanns við stöðina en hún hefur menntun frá Fiskvinnsluskólanum á Dalvík. Hrefna hefur meðal annars unnið í fiskvinnslu, sem verkstjóri og gæðastjóri.

Að auki hefur hún tekið þátt í að setja fiskvinnslufyrirtæki af stað og verið háseti á skipi. Síðustu ár hefur Hrefna unnið í ferðageiranum og verið hótelstjóri.

Starfsstöðin í Neskaupstað verður í Múlanum – samvinnuhúsi og nýjum skrifstofuklasa.