Helena Gunnars Marteinsdóttir tekur við nýju og fjölbreyttu starfi verkefnastjóra markaðsmála hjá Langasjó. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Langasjó.

Langisjór er móðurfélag nokkurra fyrirtækja í framleiðslu og dreifingu á matvælum ásamt útleigu íbúðarhúsnæðis til einstaklinga. Meðal fyrirtækja samstæðunnar eru Alma íbúðafélag hf., Mata hf., Matfugl ehf.,  Salathúsið ehf. og Síld og fiskur ehf.

Helena hefur undanfarin fimm ár starfað sem markaðsstjóri NTC ehf. Þar áður starfaði hún við ýmiss sölu og markaðsstörf í Kaupmannahöfn. Helena er með Msc. Í Business Management frá Háskólanum í Reykjavík auk bakkalár gráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá CPH Business.

„Ég hlakka mikið til að takast á við þetta spennandi og jafnframt krefjandi verkefni. Á undanförunum árum hef ég viðað að mér fjölbreyttri reynslu í sölu- og markaðsmálum sem ég tel að muni nýtast mér vel í þessu starfi. Það er sérstaklega skemmtilegt að koma inn rétt fyrir jólin og fá tækifæri á því að vinna með vörumerki með eins ríka sögu og fótfestu í íslenskri jólahefð eins og Ali, en Ali hamborgarhryggurinn hefur verið íslenskur hátíðarmatur í yfir 75 ár.", segir Helena nýr verkefnastjóri markaðsmála Langasjávar.