*

fimmtudagur, 20. febrúar 2020
Fólk 6. febrúar 2018 13:09

Helga Árnadóttir til liðs við Bláa Lónið

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, Helga Árnadóttir, tekur við framkvæmdastjórn dótturfélags Bláa lónsins.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, hefur verið ráðin til Bláa Lónsins og hefur störf 1. júní næstkomandi. Helga mun verða framkvæmdastjóri Blue Lagoon Journeys ehf, dótturfélags Bláa Lónsins, sem vinnur að þróunarverkefnum félagsins á sviði ferðaþjónustu. 

Þessi ráðning styður auknar áherslur Bláa Lónsins á þeim vettvangi segir í fréttatilkynningu. Starfið heyrir beint undir forstjóra og mun Helga taka sæti í stjórnendateymi Bláa Lónsins.

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins segir að Helga hafi unnið frábært starf sem formaður SAF en hann hafi starfað með henni þar síðustu 4 ár. „Umhverfi ferðaþjónustunnar er nú að taka byltingarkenndum breytingum ekki síst vegna stafrænnar þróunar og það er afar ánægjulegt að hafa fengið Helgu til liðs við Bláa Lónið til að leiða mjög áhugaverð verkefni á þeim vettvangi,“ segir Grímur.

„Bláa Lónið er í miklum vexti. Hjá okkur starfa nú rúmlega 700 manns en á næstu vikum opnum við nýtt upplifunarsvæði og hótel við Bláa Lónið.   Starfsemi félagsins er í stöðugri þróun og mörg spennandi verkefni sem við vinnum nú að.  Það er því mikill akkur af því að fá Helgu til liðs við okkur í þessi mikilvægu verkefni.“

Helga Árnadóttir segir verkefni tengd þróun og nýsköpun Bláa lónsins vera spennandi. Segir hún að það verði „gaman að fá að takast á við þau með öflugu starfsfólki og forstjóra, sem ég hef átt mjög gott og farsælt samstarf við á síðustu árum á vettvangi SAF. 

Fyrirtækið er leiðandi í ferðaþjónustu á Íslandi og er það von mín að kraftar mínir og reynsla muni nýtast vel í þeim fjölmörgu þróunarverkefnum sem framundan eru.“