Helga Björk Eiríksdóttir hefur verið ráðin forstjóri INNOVA ehf. Hún mun leiða stefnumótun fyrirtækisins og samstarf byggingarfélaga í eigu þess. Mikill vöxtur undanfarin ár kallar á breytingar til að straumlínulaga reksturinn, gera fyrirtækið sveigjanlegra og betur í stakk búið til að takast á við stór verkefni sem fyrirhuguð eru ásamt því að mæta sveiflum á fasteignamarkaði á næstu misserum.

Í tilkynningu vegna ráðningarinnar segir að Helga Björk hafi verið markaðs- og kynningarstjóri hjá OMX Nordic Exchange á Íslandi  (Kauphöllinni) frá ársbyrjun 2000 og leiddi fjölmörg þróunar- og samþættingarverkefni á  miklu vaxtarskeiði í sögu Kauphallarinnar auk þess að vera ábyrg fyrir stefnumótun og  framkvæmd markaðs- og kynningarstarfs á vegum Kauphallarinnar hérlendis sem á erlendri  grundu. Helga Björk er með MBA-próf frá Háskólanum í Edinborg, BA-próf í ensku/ítölsku frá Háskóla Íslands, próf í hagnýtri fjölmiðlun frá sama skóla og próf í markaðs- og  útflutningsfræði frá Endurmenntun HÍ. Helga Björk er gift Guðjóni Ólafi Jónssyni, hæstaréttarlögmanni.