„Það eru mörg ár síðan ég áttaði mig á þessu. Þetta er agaleg staðreynd, sem ég vona að breytist einhvern tíma, en konur fá ekki sömu virðingu og njóta ekki sama vægis og karlar. Þetta gerist áreiðanlega af því að við erum ekki nógu sterkar. við erum í vörn,“ segir athafnakonan Helga Ólafsson.

Helga segir konur í viðskiptalífinu ekki fá sömu áheyrn og karlar. Þetta virðist almennt víða um heim.

„Ég hef alltaf verið að bíða eftir því að þetta breytist en það virðist ekki ætla að gerast,“ segir hún og segir mikilvægt að konur standi saman. Hún hrósar Félagi kvenna í atvinnulífinu (FKA) í hástert og bendir m.a. að þrátt fyrir mótlætið og forneskjuleg viðhorf gagnvart konum þá vegni fleiri konum vel í viðskipta- og efnahagslífinu en áður og mun fleiri þeirra gegni háum stöðum. Hún hefur á orði að samtímis því virðist í sumum tilvikum sem karlmenn óttist konur sem vegni vel. Hún bendir á Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, sem dæmi.

Finnurðu fyrir þessu sjálf?

„Já, ég finn fyrir því. yfirleitt veit ég ég hvar það mun gerast. Þá hef ég hikstalaust hringt í annan hvorn sona minna og spurt hvort þeir vilji koma með mér á fund, í alvörunni. Þá kemur karlmaður að borðinu. Hann þarf ekki að segja neitt. En maður þarf að bjarga sér.“

Ítarlegt viðtal er við Helgu Ólafsson í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Þar ræðir hún m.a. um fortíðina og þau mörgu verkefni sem hún er með í bígerð. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .