Helga Guðrún Ólafsdóttir hefur verið ráðin sem aðalbókari hjá Odda og Kvos, en hátt í 100 manns sóttu um starfið þegar það var auglýst á dögunum.

Helga Guðrún mun stýra reikningshaldi og fleiri þáttum í bókhaldsvinnslu fyrirtækisins, til dæmis uppgjöri í samráði við fjármálastjóra, sérfræðinga á fjármálasviði og endurskoðanda félagsins.

Helga Guðrún er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Hún hefur starfað hjá Deloitte undanfarinn áratug, meðal annars sem verkefnastjóri á endurskoðunarsviði. Þar áður var hún hjá KPMG. Meðal forvitnilegra sumarstarfa Helgu Guðrúnar má nefna að hún vann sem gjaldkeri hjá Kaupfélagi Skagfirðinga og var sölumaður nýrra bíla hjá Ingvari Helgasyni hf.

Helga Guðrún er í sambúð með Jóni Frey Magnússyni og eiga þau þriggja ára gamla dóttur.

Fjármálasvið Odda tilheyrir Kvos, sem er móðurfélag Odda, en það er eitt stærsta framleiðslufyrirtæki landsins. Hjá Odda starfa um 300 manns, sem sinna 3.500 viðskiptavinum. Um 70% umsvifa fyrirtækisins eru á sviði umbúðaframleiðslu – einkum úr bylgjupappír, kartoni og plasti. Tæplega 30% umsvifanna felast í fjölbreyttri prentþjónustu.