„Eitt leyndarmál sem ég held að nýtist Íslendingum sérstaklega vel er St. Christophers Place sem Sigurður G. Guðjónsson lögmaður kynnti mig fyrir árið 2007 þegar við vorum á ferð í London ásamt og fleirum," segir Helga Hlín Hákonardóttir, lögmaður og meðeigandi CrossFit XY.

„Torgið er staðsett vinstra megin við efra H&M á Oxford Street. Þarna eru göng sem eru ekki breiðari en einn og hálfur meter á breidd, þannig að þau fara framhjá lang flestum sem þarna fara um. En svo víkka göngin eftir því sem maður nálgast torgið. Þarna er fullt af ítölskum veitingastöðum þar sem hægt er að sitja úti í sólinni og fylgjast með götulistamönnum og njóta lífsins, í friði frá skarkala Oxford Street, sem er rétt handan hornsins. Þetta er algjör vin í stórborginni, ef maður þarf á annað borð að hætta sér á Oxford Street," segir Helga Hlín.

Helga Hlín verður á ferðinni í sumar og ætlar meðal annars að skella sér til Bandaríkjanna: „Ég ætla á heimsleikana í CrossFit í Los Angeles en þeir eru að verða árlegur viðburður hjá okkur hjónunum. Að upplifa og njóta Los Angeles er eðlilega ævilangt verkefni, en maður lætur sig alveg hafa það með sólgleraugun á nefinu og bros á vör," segir Helga Hlín og bætir við: „Og svo til að ná að klára að faðma heiminn þá þarf ég að fara til Japans. Bæði til að kynnast ótrúlegri sögu og menningu, en meðalhæð Japana er mér líka hagstæð. Og svo verður maður að prófa að skíða í loftkenndum snjónum þar. Ég er búin að heyra aðeins of margar sögur af púðrinu og bara verð að prófa."