*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Innlent 25. október 2018 23:13

Helga Hlín og Jón hætt í stjórn VÍS

Helgu Hlín Hákonardóttir, stjórnarformaður VÍS, og Jón Sigurðsson hafa sagt sig úr stjórn VÍS vegna trúnaðarbrests og ágreinings.

Ritstjórn
Helga Hlín Hákonardóttir, fráfarandi stjórnarformaður VÍS.
Aðsend mynd

Helgu Hlín Hákonardóttir, stjórnarformaður VÍS, og Jón Sigurðsson sögðu sig bæði úr stjórn VÍS í dag.

Í tilkynningu frá Helgu Hlín og Jóni kemur fram að ástæða úrsagnar sé ágreiningur um stjórnarhætti innan stjórnar félagsins, ásamt trúnaðarbresti og ágreiningi um umboðsskyldu stjórnarmanna.

„Okkur þykir afar miður að segja okkur frá stjórnarstörfum í stjórn VÍS á þessum tímapunkti. Við höfum starfað af heilhug innan stjórnar og talið fullan trúnað og traust ríkja meðal stjórnarmanna á árangursríkri vegferð félagsins. Nú er hins vegar svo komið að stjórnarhættir innan stjórnar hafa leitt af sér trúnaðarbrests og um leið efa okkar um að umboðsskyldu stjórnarmanna sé gætt í ákvarðanatöku. Undir slíkum kringumstæðum eru forsendur brostnar fyrir því að við getum sinnt skyldum okkar og axlað ábyrgð sem stjórnarmenn. Við þökkum stjórnendum og starfsmönnum félagsins einkar ánægjulegt og árangursríkt samstarf og óskum þeim alls velfarnaðar á vegferð félagsins,“ segir í tilkynningunni frá þeim.

Helga Hlín við formennsku í stjórn VÍS fyrsta 1. júni af Svanhildi Nönnu Vigfúsdóttir, sem varð þá almennur stjórnarmaður. Breytingin varð daginn eftir umfangsmikla lögregluaðgerð og handtökur í tengslum við rannsókn á sölu meirihluta Skeljungs út úr Glitni árið 2008 til félags sem að stærstum hluta var í eigu Svanhildar Nönnu og eiginmanns hennar, Guðmundar Arnar Þórðarsonar.

Eftir í stjórn VÍS eru:

  • Valdimar Svavarsson, formaður
  • Gestur Breiðfjörð Geirsson, varaformaður
  • Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir

Varamenn: 

  • Ólöf Hildur Pálsdóttir
  • Sveinn Friðrik Sveinsson