Ísfisktogarinn Helga María AK landaði úr sínum síðasta túr á Íslandsmiðum í bráð í lok maí. Þá kom skipið til hafnar með um 150 tonna afla. Skipið hefur verið leigt til hafrannsókna við Grænland í sumar. Þetta er annað árið í röð sem Helga María er fengin í rannsóknir á útbreiðslu nytjastofna í grænlenskri lögsögu en í fyrrasumar var skipið í um þrjá mánuði við rannsóknir á útbreiðslu rækju við Vestur-Grænland.

Stefnt er að því að skipið komi heim úr Grænlandsverkefninu 3. ágúst, segir á heimasíðu Brims.

Heimir Guðbjörnsson verður skipstjóri fyrsta mánuð rannsóknaverkefnisins en að þeim tíma loknum tekur Friðleifur Einarsson við skipstjórninni. Heimir þekkir vel til verkefnisins enda var hann lengst af með skipið í rannsóknaverkefninu í fyrra.

„Það verða 67 dagar að þessu sinni. Við byrjum á 26 dögum við rækjurannsóknir við Vestur-Grænland. Þá verður farið í tvær vikur í rækjurannsóknir suður við Hvarf og svo verða síðustu rúmu tvær vikurnar nýttar til að kanna útbreiðslu karfa og þorsks við Austur-Grænland,” sagði Heimir Guðbjörnsson, þegar rætt var við hann skömmu fyrir brottförina til Grænlands.