Helga Dögg Björgvinsdóttir og Jessica Poteet hafa verið ráðnar sem viðskiptastjórar í vaxandi söluteymi Men&Mice, að því er kemur fram í fréttatilkynningu um ráðninguna.  Men&Mice er nú með starfsemi á Íslandi, Bandaríkjunum og Þýskalandi.

„Hlutverk viðskiptastjóra er meðal annars að byggja upp net samstarfsaðila erlendis og auka samstarfsmöguleika við núverandi viðskiptavini. Þá mun Helga Dögg leiða samstarf Men&Mice við Microsoft en í því samstarfi felst sameiginleg markaðssókn beggja fyrirtækja.

Helga Dögg Björgvinsdóttir er með MSc próf í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá HÍ og BA próf í almennri bókmenntafræði frá sama skóla. Áður en Helga Dögg gekk til liðs við Men&Mice starfaði hún hjá Microsoft þar sem hún sinnti fyrst um sinn starfi markaðs- og fjármálastjóra á íslensku söluskrifstofunni en síðar starfi sölustjóra samstarfsaðila. Helga Dögg kemur inn með fjölbreytta reynslu úr mismunandi greinum atvinnulífsins en auk upplýsingatæknigeirans hefur hún reynslu af bókaútgáfu, fjölmiðlun og framleiðslu þar sem hún hefur sinnt rekstri, sölu og markaðsmálum jöfnum höndum. Hún hefur að auki starfað ötullega að samfélagsmálum en hún er meðal annars varaformaður Kvenréttindafélags Íslands en hefur einnig lagt sitt af mörkum í skólasamfélaginu og komið að stjórnmálastarfi.

Jessica Poteet er með MBA gráðu frá HEC Paris ásamt MSc og BS í jarðfræði frá University of Kansas. Jessica starfaði sem jarðvísindamaður í rúman áratug hjá Chevron, fyrst í Bandaríkjunum og síðar sem viðskiptaþróunarstjóri hjá Chevron í höfuðstöðvum þeirra í Singapore. Áður en Jessica gekk til liðs við Men&Mice var hún sjálfstætt starfandi ráðgjafi í markaðsmálum og stefnumótun fyrir sprotafyrirtæki víðs vegar um heim þar á meðal; inHEART í Frakklandi, Wombats City Hostels á Ítalíu, Copia í Bandaríkjunum og Clicksale á Íslandi. Jessica hefur mikinn áhuga á nýsköpun fyrirtækja og sinnir hún ástríðu sinni með því að vera leiðbeinandi hjá Startup Reykjavík,“ segir í tilkynningu um ráðninguna.