Tveir nýir starfsmenn hafa gengið til liðs við Poppins & Partners - þær Helga Kristín Sæbjörnsdóttir, aðstoðarmanneskja stjórnenda og Ólína Laxdal, sem mun leiða samhæfingu stafrænna vara félagsins. Fyrirtækið hefur verið í örum vexti samhliða þróun á nýjum þjónustuleiðum og eru nú að auka við stafrænt vöruframboð sitt. Helga Kristin og Ólina hafa þegar hafið störf.

Helga Kristín Sæbjörnsdóttir , aðstoðarmaður stjórnenda, er með Msc. gráðu í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst, Bsc. gráðu í íþrótta- og heilsufræði ásamt gráðu í kennslufræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur viðamikla reynslu sem verkefnastjóri og framhaldsskólakennari auk þess að  hafa starfað sem ráðgjafi fyrir sveitarfélög og aðstoðað við innleiðingu Heilsueflandi samfélags sem stýrt er af Embætti landlæknis.

Ólína Laxdal
Ólína Laxdal
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Ólína Laxdal , sem mun leiða samhæfingu stafrænna vara, er með Bsc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst og diplómu í verkefnastjórnun og rekstrarfræði. Hún er þá með IPMA og SCRUM vottanir í verkefnastjórnun. Ólína hefur meðal annars starfað sem sjálfstætt starfandi verkefnastjóri á sviði stafrænna vara og sem deildarstjóri hjá N1.

Poppins & Partners, sem stofnað var af þeim Hönnu Kristínu Skaftadóttur og Þórunni Jónsdóttur, hefur boðið þjónustu og stuðning við frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtæki frá árinu 2017.

Árið 2020 hefur fyrirtækið unnið að aukningu vöru- og þjónustuframboðs síns með áherslu á stafrænar vörur og námskeið sem styðja við frumkvöðla á öllum sviðum atvinnulífsins, allt frá nýsköpun og skapandi greinum til verslunar og þjónustu. Félagið hóf þá nýverið að bjóða upp á ráðgjöf á sviði fjármögnunarstefnumótunar og stafrænnar umbreytingar og sjálfvirknivæðingar.