„Þegar ég kom til baka þá þurfti ég að læra nýtt tungumál,“ segir athafnakonan Helga Ólafsson. Hún stofnaði Skífuna með þáverandi manni sínum, vatnsbóndanum Jón Ólafssyni, um miðjan áttunda áratug síðustu aldar og sá hún um rekstur verslana fyrirtækisins allt þar til fjölskyldan flutti til Bretlands árið 1998. Þau Jón seldu svo allar eigur sínar, fyrirtæki og heimili, fimm árum síðar. Helga, sem nú býr í Los Angeles, segir í samtali við Viðskiptablaðið að hún hafi fengið áfall þegar hún hætti verslanarekstrinum á sínum tíma. Hún kom ekki að fjárfestingum hér á landi fyrr en um áratug síðar þegar hún keypti 25% hlut í Confirmed News, sem á og rekur Spyr.is.

Helga segist margt hafa breyst frá því hún flutti utan. M.a. hafi tungumálið tekið slíkum breytingum að hún hafi þurft að læra ný orð á móðurmáli sínu.

„Ég hafði t.d. aldrei heyrt orða á borð við frumkvöðlar,“ segir hún m.a. og viðurkennir að sér finnist það misskilið hér á landi. Frumkvöðlar þurfi að finna upp á einhverju nýju. Ekki sé nóg að opna verslun til að geta kallað sig frumkvöðul. „Ég byrjaði á því að eignast litla hljómplötuverslun og bjó síðan til stórveldi í skemmtanabransanum. Mér finnst það þurfa að hafa meira en pínulítinn pakka í kringum þetta til að geta kallað sig frumkvöðul,” segir hún.

Ítarlegt viðtal er við Helgu Ólafsson í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Þar ræðir hún m.a. um fortíðina og þau mörgu verkefni sem hún er með í bígerð. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .