*

þriðjudagur, 19. nóvember 2019
Innlent 30. september 2019 10:41

Helga sorgmædd yfir endalokum iglo+indi

Helga Ólafsdóttir, einn eigenda og helsti hugmyndasmiðurinn á bakvið iglo+indi, hefur tjáð sig um gjaldþrot fyrirtækisins.

Ritstjórn

Helga Ólafsdóttir, fatahönnuður, einn eigenda og helsti hugmyndasmiðurinn á bakvið barnafatamerkið iglo+indi, hefur tjáð sig um gjaldþrot fyrirtækisins. Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku þá var hönnunarfyrirtækið Ígló ehf., sem fór með vörumerki iglo+indi, úrskurðað gjaldþrota þann 12. september síðastliðinn.

Í stöðuuppfærslu á Facebook segist Helga mjög sorgmædd yfir endalokum iglo+indi. Það sé flókið fyrir lítil hönnunarfyrirtæki á Íslandi að lifa af. Rekstrarumhverfið sé sveiflukennt og mjög dýrt sé að þróa, framleiða, markaðssetja og selja íslenska hönnun hérlendis og erlendis. Því telji hún nokkuð gott að hafa lifað af í þessu rekstrarumhverfi í ellefu ár, sé miðað við sambærileg fyrirtæki í bransanum.

Stöðuuppfærslu Helgu má sjá í heild hér að neðan:          

Ég er mjög sorgmædd yfir endalokum iglo+indi eins og kom fram á mbl.is á miðvikudaginn. Ferðalag iglo+indi hófst við eldhúsborðið heima hjá mér vikuna fyrir bankahrunið 2008. Allar götur síðan hefur allur minn kraftur farið í að hugsa um fyrirtækið, hvern einasta dag með alúð og einlægni, eins og litlu barni sem þarf að koma á legg. Þróunarferli á hverri einustu flík tekur um það bil eitt ár með tilheyrandi kostnaði og vinnu. Það þarf þol og metnað til að hanna og framleiða um 2500 mismunandi flíkur eins og við gerðum hjá iglo+indi. Það er mikil tilfinningaleg tenging og hugverkið er mér mjög náið.

Það er flókið fyrir lítil hönnunarfyrirtæki á Íslandi að lifa af. Rekstrarumhverfið er ekki bara sveiflukennt heldur er mjög dýrt að þróa, framleiða, markaðssetja og selja íslenska hönnun hérlendis og erlendis. Að hafa lifað af í þessu rekstrarumhverfi í ellefu ár er bara nokkuð gott ef miðað er við sambærileg fyrirtæki í þessum bransa. Það er samt engin huggun í því og að þurfa að kveðja á þennan hátt hefur verið ansi erfitt. Það er erfitt að sætta sig við það hvernig fór.

Ég er þakklát og stolt af því að hafa fengið tækifæri til að vera frumkvöðull og byggja upp vörumerki á Íslandi í samstarfi við ótrúlega hugrakkt og hæfileikaríkt fólk. Fólki sem vann að því að koma iglo+indi í sölu í verslunum um allan heim, á tískupallanna á tískuvikunni í Flórens, í helstu tískutímaritin og svo lengi mætti telja. Þetta hefur verið lærdómsríkt ferðalag í 11 ár.

Ég vona að iglo+indi muni lifa áfram á hugum fólks og að flíkurnar haldi áfram að fara barna á milli. Á sama tíma hvet ég alla Íslenska hönnuði til að láta draumanna sína rætast. Íslensk hönnun er mikilvæg - Never stop designing!!