Helga Melkorka Óttarsdóttir hæstaréttarlögmaður hefur tekið við faglegri framkvæmdastjórn Logos lögmannsþjónustu. Hún tekur við starfinu af Gunnari Sturlusyni hæstaréttarlögmanni sem gegnt hefur starfinu síðastliðin 12 ár. Helga hóf störf hjá Logos árið 2001 og gekk í raðir eigenda stofunnar árið 2002. Áður starfaði hún m.a. hjá Eftirlitsstofnun EFTA í Brussel og hefur hún í störfum sínum lagt megináherslu á samkeppnisrétt, Evrópurétt og félagarétt.

Gunnar snýr sér að nýju að lögmennsku hjá Logos og mun hann leggja áherslu á félagarétt, samkeppnisrétt og málflutning, að því er fram kemur í tilkynningu frá Logos.

Helga Melkorka er fædd árið 1966 og lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands 1991. Hún lauk LL.M gráðu í Evrópu- og alþjóðalögum frá Ruprecht-Karls-Universität-Heidelberg 1994, hlaut réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi 1999 og fyrir Hæstarétti árið 2011. Helga er gift Karli Þráinssyni, forstjóra ÍAV, og eiga þau fjögur börn.