*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 27. maí 2013 08:19

Helga Waage: Íslenskir frumkvöðlar ekki nógu hungraðir

Frumkvöðlar þurfa að tileinka sér kröftugra hugarfar, að mati Helgu Waage hjá Mobilitus.

Ritstjórn
Helga Waage er hér með þremur öðrum frumkvöðlakonum. Þær eru Helga Waage, Ingibjörg Gréta Gísladóttir, Magga Dóra Ragnarsdóttir og Rakel Sölvadóttir.

Veikleiki Íslendinga upp á síðkastið einkennist af því að drifkraftinn vantar til að gera hugmyndir að veruleika áður en einhver annar verður fyrri til, ákveðið hungur, að mati Helgu Waage, stofnanda hugbúnaðarfyrirtækisins Mobilitus. Helga segir í samtali við Morgunblaðið í dag að íslenskir frumkvöðlar með þurfa góðar hugmyndir þurfi að tileinka sér kröftugra hugarfar.

„Það vantar meira af þessu „do or die“-viðhorfi sem rekur ameríska frumkvöðla áfram,“ segir hún og bendir á að frumkvöðlar í íslenska hugbúnaðargeiranum nefni oft sömu umkvörtunarefni: erfiðan aðgang að fjármögnun, skort á hæfu fólki og misgreiðan aðgang að erlendum mörkuðum. Hún telur þetta kunna að breytast og góður árangur fyrirtækja eins og Plain Vanilla og CLARA virðist bæði hafa aukið áhuga fjárfesta á tæknigeiranum og veitt frumkvöðlum innblástur og hvatningu.

Í umfjöllun blaðsins er rifjað upp að Helga og maður hennar, Þórarinn Stefánsson, hafi komið að nokkrum tæknifyrirtækjum í gegnum tíðina. Þau stofnuðu Mobilitus árið 2009 og er það nú þriðja stærsta fyrirtækið í Bandaríkjunum á sviði netsölu í gegnum farsíma. Helga segir m.a. þau Þórarin hafa beðið eftir snjallsímatækninni í 10-15 ár. Kjarnavara Mobilitus er hugbúnaður sem gerir viðburðahöldurum kleift að selja miða í gegnum snjallsíma og eins gestinum að nota símann sem rafrænan miða sem hægt er að sýna eða skanna við innganginn.

Stikkorð: Helga Waage Mobilitus