*

þriðjudagur, 16. júlí 2019
Fjölmiðlapistlar 14. júní 2019 13:26

Helgablaðið

Fjölmiðlarýnir fjallar um kaup Helga Magnússonar á helmingshlut í Fréttablaðinu.

Andrés Magnússon
Gígja Einarsdóttir

Kaup Helga Magnússonar fjárfestis í helmingi Torgs, útgáfu Fréttablaðsins, hafa að vonum vakið athygli. Útgáfan hefur lengi verið til sölu og ýmsir þreifað fyrir sér, en hingað til hafa granítgreiptar verðhugmyndir hjónanna Ingibjargar Pálmadóttur og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar staðið í mönnum. Þau hafa metið fyrirtækið á um milljarð króna, en svo getur fleira spilað þar inn í, eins og skuldir, seljandalán og þar fram eftir götum.

Margir urðu því hissa á að Helgi skyldi fallast á verðið sem öðrum óx í augum, en hann hefur til þessa ekki verið þekktur fyrir örlæti á fé í viðskiptum. Hann keypti þó, sem fyrr segir, ekki nema helminginn í félaginu, en talið er víst að fastmælum sé bundið að hann finni kaupanda að hinum helmingnum.

Nafn Sigurðar Arngrímssonar (sem er þremenningur við fjölmiðlarýni) heyrist iðulega nefnt í því samhengi, en hann er eigandi sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar og helsti peningamaðurinn á bak við Viðreisn, eindreginn Evrópusinni líkt og Helgi.

Ingibjörg og Jón Ásgeir eru sögð einfaldlega vilja hverfa úr þessum geira eftir 17 ára viðburðaríka sögu, en það gera þau vitaskuld ekki meðan þau halda enn á helmingnum. Eins er bent á að þau hafi selt nákvæmlega helming, þannig að eigendurnir verði að koma sér saman um alla hluti. Öll eru þau skaprík og með ákveðnar hugmyndir á atvinnurekstri, svo fæstir telja að stjórn Torgs verði friðarsetur meðan eignarhaldinu er þannig farið.

***

Við blasir að taka þarf til hendinni hjá Fréttablaðinu. Reksturinn hefur að vísu verið vel þolanlegur að undanförnu, en það kostaði verulegt aðhald, sem hefur m.a. orðið til þess að lykilfólk hefur horfið frá blaðinu og það hefur komið niður á gæðum blaðsins.

Við þær aðstæður er engin von til sóknar hjá blaðinu, en það þarf nú samt sem áður að sækja, því það getur ekki lifað endalaust við að lestur þess dragist jafnt og þétt saman, líkt og verið hefur frá því skömmu fyrir bankahrun.

Hugsanlega er ómögulegt að snúa þeirri vörn í sókn, dagblöð um allan heim hafa átt mjög í vök að verjast. Samt sem áður verður að gera ráð fyrir að áfram verði þörf fyrir almennar og áreiðanlegar fréttir, sem finna munu sér farveg til neytenda, hvort sem það er gert með pappír inn um lúgur eða eftir öðrum leiðum.

Torg, útgáfa Fréttablaðsins, kann þó að eiga erfiðara með það en aðrir, því sennilegt er að þegar ljósvakamiðlar 365 voru seldir hafi verið samningsákvæði um að útgáfa Fréttablaðsins héldi sig af ljósvakamarkaði í tiltekinn tíma. Myndi samstarf eða eignatengsl við Hringbraut breyta einhverju um það?

***

En hvað vill Helgi með Fréttablaðið? Hann hefur auðvitað sínar fjölmiðlatengingar, var ritstjóri Frjálsrar verslunar á liðinni öld og hefur verið viðloðandi Hringbraut. Þar að baki býr vitaskuld pólitískur áhugi, en Helgi er einn helsti bakhjarl Viðreisnar. Hann er raunar mun hægrisinnaðri en velflestir forystumenn flokksins, en mestu skiptir einlægur áhugi hans á að Ísland gangi í Evrópusambandið. Það er því tæplega svo að hann ætlist til þess að Fréttablaðið gerist málgagn Viðreisnar, en hitt er sennilegra að það taki Evrópumálin upp á sína arma.

***

Það gerist auðvitað ekki í tómarúmi, umræðan um 3. orkupakkann að undanförnu hefur að sumu leyti haft mjög ákveðinn undirtón um Evrópumálin. Þar hefur til þessa borið mun meira á andstöðu við frekara samkrull við Evrópusambandið og úr sömu hornum hefur upp á síðkastið einnig gætt efasemda um EES, svona almennt og yfirleitt.

Ekki ætti að koma á óvart ef þau viðhorf verði meira áberandi á næstunni. Björn Bjarnason, fv. ráðherra, vék sérstaklega að þessu á vef sínum um helgina:

Hvorki Fréttablaðið né Morgunblaðið styðja stjórnmálaflokka en gæta eins og eðlilegt er hagsmuna eigenda sinna. Á ritstjórnarstefnu blaðanna er greinilegur munur þegar litið er til þess hvernig tekið er á viðfangsefnum í ritstjórnardálkum þeirra.

Á Fréttablaðinu er hvatt til frjálsra viðskipta og lýst eindregnum stuðningi við EESaðildina án þess að fyllast ótta vegna þriðja orkupakkans. Þá sætir framganga Miðflokksins og þingmanna hans harðri gagnrýni.

Á Morgunblaðinu er lýst efasemdum um frjáls viðskipti eins og þau þróast með EES-samningnum og hart barist gegn þriðja orkupakkanum. Þá sætir framganga Sjálfstæðisflokksins og þingmanna hans harðri gagnrýni.

Þetta má kalla sögulega kúvendingu á íslenskum fjölmiðlavettvangi og forvitnilegt verður að sjá til hvers hún leiðir.

Hvort þetta er rétt greining hjá Birni mun tíminn leiða í ljós, en það væri vissulega athyglisverð skautun, ef uppsögn EES kæmist allt í einu á dagskrá og Evrópusinnar telji um leið (og af sömu ástæðu) að nú sé lag til þess lemja Evrópusambandsaðild í gegn að nýju. Og auðvitað hætt við að hinir, sem ekki vilja í ESB en líður ágætlega í EES, eigi bágt með að finna sér málsvara.

Ef það allt gengur eftir verður það ekki 3. orkupakkinn, heldur orkupakkinn³.

***

Kaup Helga á hlutnum í Fréttablaðinu komu vitaskuld ekki upp úr engu, um þau hafði verið hvíslað vikurnar á undan. Viðskiptablaðið innti hann eftir því nokkrum dögum áður en greint var frá kaupunum, en hann harðneitaði því blákalt að nokkurt slíkt væri í kortunum. Sem auðvitað er verra.

Augljóst merki um að kaupin væru í höfn birtust svo, þegar greint var frá því að Davíð Stefánsson hefði verið ráðinn ritstjóri, en hann hefur enga fjölmiðlareynslu aðra en þá að hann hefur um tveggja mánaða skeið stjórnað þætti um alþjóðamál á Hringbraut.

Nú eru tvær vikur síðan Davíð var ráðinn á Fréttablaðið og fjölmiðlarýnir nánast viðþolslaus eftir að fyrsti leiðarinn eftir hann birtist. Hann hlýtur þó að koma og þá mun erindi Helga með kaupunum eflaust skýrast.

Því skal hér spáð, alveg ókeypis, að fyrsti leiðari Davíðs fjalli um eitthvað sem stendur hjarta Helga nærri.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is