Ari Helgason fjárfestir hefur starfað innan heims sprotafyrirtækja í á annan áratug. Síðustu átta ár hefur hann verið að fjárfesta í sprotafyrirtækjum, en þar áður var hann frumkvöðull í fimm ár.

Þessa dagana vinnur hann að stofnun nýs fjárfestingasjóðs með Davíð Helgasyni, bróður sínum og stofnanda Unity Games, ásamt manni að nafni Benjamin Ratz. Hann var einnig skipaður í stjórn hins nýstofnaða opinbera fjárfestingasjóðs Kríu á dögunum.

Ari vill ekki segja of mikið um hinn nýja sjóð sem þeir bræður og félagar vinna nú að, enda ýmislegt enn óútfært. „Í grófum dráttum erum við að koma af stað fjárfestingafélagi til að fjárfesta sérstaklega í málum sem tengjast loftslagsbreytingum og umhverfismálum.“

Hann tekur dæmi af því að Davíð bróðir hans hafi fjárfest í dönsku fyrirtæki að nafni Seaborg Technologies sem vinnur að þróun næstu kynslóðar kjarnorkuvera, sem komið verði fyrir á prömmum sem síðan verða dregnir þangað sem þeirra er þörf. Þar muni þeir taka við af kolaverum og annarri frumstæðri og mengandi raforkuframleiðslu, aðallega í þróunarlöndum.

Ekki verði þó horft sérstaklega til tiltekins tekjumódels umfram annað, né að þeir muni einblína alfarið á tækni sem vinni með beinum hætti gegn loftslagsbreytingum, heldur komi fjölbreyttar tegundir fyrirtækja til greina. „Bara fyrirtæki sem geta skalað upp hratt og orðið sjálfbær. Það getur þýtt grænni framleiðslumátar eða annars konar umhverfisvænt verklag og starfsemi.“

Ari segir þá tvímælalaust munu beita sér fyrir umhverfisáherslum sem fjárfestar og hluthafar. „Við komum náttúrulega úr sprotaheiminum, og áherslan verður á slík fyrirtæki til að byrja með. Það verður þá þetta klassíska módel þar sem maður tekur stjórnarsæti, eða er í það minnsta mjög virkur í að hjálpa fyrirtækinu að vaxa. Þetta er náttúrulega það sem ég hef verið að gera síðustu átta árin. Þetta verðum við þrír til að byrja með og síðan munum við byrja að ráða eitthvað af fólki í ár til að byggja upp teymi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .