Helgi S. Gunnarsson, forstjóri fasteignafélagsins Regins, hefur óskað þess við stjórn félagsins að láta af störfum á næstu mánuðum. Hann hefur gegnt starfi forstjóra Regins hf. frá stofnun félagsins árið 2009.

Helgi mun, að beiðni stjórnar, sinna starfinu þar til ráðið hefur verið í stöðuna og mun m.a. sitja áfram í stjórn Klasa fyrir hönd Regins, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

„Við höfum unnið markvisst að uppbyggingu félagsins frá byrjun og höfum náð frábærum árangri. Reginn stendur traustum fótum og fyrst og fremst þakka ég þann árangur mikilli samheldni og stefnufestu stjórnar, stjórnenda og starfsmanna félagsins. Ég er ákaflega stoltur og ánægður yfir því að hafa fengið tækifæri til að vinna að þróun og vexti Regins síðastliðin fjórtán ár,“ segir Helgi.

Áður en hann hóf störf hjá Regin var Helgi framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélagsins Portusar ehf. og dótturfélaga á árunum 2006-2009. Þar áður var hann framkvæmdastjóri Nýsis Fasteigna ehf. og dótturfélaga þess á árunum 2005-2006 og sviðsstjóri framkvæmdasviðs VSÓ ráðgjafar ehf. og einn af eigendum þess árin 1989-2004.

„Framundan eru nýjar áskoranir og mikilvæg verkefni sem félagið er vel í stakk búið að takast á við. Skýr framtíðarsýn og markmið hafa lagt traustan grunn sem byggt verður á eftir farsælt starf Helga sem forstjóra,“ segir stjórn Regins.