Herðing gjaldeyrishaftanna er í fullu samræmi við það sem boðað var við innleiðingu gjaleyrishaftanna. Ef hægt væri að sniðganga lögin yrði brugðist við því af hálfu Seðlabankans og löggjafans. Þetta sagði Helgi Hjörvar, þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar á hádegisfundi Félags Viðskipta- og hagfræðinga í dag. Á fundinum var spurt hvort þau séu komin til þess að vera.

Helgi sagði það eðli markaðarins að finna lausnir og úrræði. Því þurfi það að vera skýrt að löggjafinn bregðist við á hverjum tíma og loki glufum gjaldeyrishafta. Hann sagði að það megi gagnrýna að lagabreytingin hafi ekki verið gerð fyrr, þar sem vandi íbúðabréfa og afborganir af þeim hafi legið fyrir um nokkurn tíma.

Helgi sagðist hræddur um að krónan verði nokkurn tímann látinn fljóta eins og árin fyrir hrun. Verði hún sett á flot þá mun verða notast við varúðartæki. Þau séu nauðsynleg til þess að forðast alvarleg áföll.

Hann sagði að útboð Seðlabankans geti skapað aðstæður til þess að lyfta höftunum. Hann treysti sér þó ekki til þess að segja hversu langan tíma það tæki. Að hans mati er eitt af brýnustu verkefnunum í dag að klára samningaviðræður um Evrópusambandsaðild.