Helgi Hjörvar var á þingflokksfundi Samfylkingarinnar í dag kjörinn formaður þingflokksins. Helgi er þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Fram kemur í tilkynningu að með Helga voru kosin í stjórn þingflokksins þau Oddný G Harðardóttir, sem var kosin varaformaður og Kristján L. Möller, sem var kosinn ritari. Oddný var áður formaður þingflokksins.

Helgi hefur gegnt mörgum trúnaðarstörfum á tíu ára þingferli sínum sem þingmaður Reykvíkinga, gegndi embætti formanns  efnahags- og viðskiptanefndar frá 2011 og var þar áður formaður efnahags- og skattanefndar. Oddný tók sæti á þingi 2009, gegndi embætti formans fjárlaganefndar, var þingflokksformaður og gegndi embætti fjármála- og efnahagsráðherra. Kristján hefur setið á þingi síðan 1999, gegndi embætti samgöngu- og  sveitarstjórnarráðherrra og var formaður atvinnuveganefndar á síðasta kjörtímabili, að því er segir í tilkynningunni.