Helgi Eysteinsson hefur fest kaup á hlut Atla Freys Sveinssonar í Íslensku auglýsingastofunni og bætist þar með í eigendahóp stofunnar. Helgi kemur til starfa á Íslensku á allra næstu dögum og mun einkum sinna markaðsráðgjöf, viðskiptaþróun og öflun nýrra viðskiptavina.

Helgi er 41 árs gamall og lauk prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands 1999. Helgi starfaði í markaðsviðskiptum hjá Íslandsbanka á árunum 1999-2002 og sem markaðsráðgjafi hjá Íslensku auglýsingastofunni frá 2002-2004.

Framkvæmdastjóri í ferðaþjónustu

Hann var sölu- og markaðsstjóri hjá Ferðaskrifstofu Íslands - Úrval Útsýn á árunum 2004-2006 og starfaði í markaðsviðskiptum hjá Glitni á árunum 2006-2008. Vorið 2008 varð Helgi framkvæmdastjóri Iceland Travel, sem er stærsta ferðaskrifstofa landsins og sinnir eingöngu móttöku erlendra ferðamanna. Iceland Travel er eitt af dótturfyrirtækjum Icelandair Group.

Í byrjun árs 2012 tók Helgi við starfi framkvæmdastjóra ferðaskrifstofunnar VITA, sem einnig er dótturfélag Icelandair Group. Helgi lét af störfum hjá VITA á vormánuðum 2013 og stofnaði þá Optimal ráðgjöf, þar sem hann tók að sér fjölbreytt verkefni fyrir mörg íslensk fyrirtæki. Haustið 2015 tók hann að sér að setja á stofn og byggja upp Elju – þjónustumiðstöð atvinnulífsins.

Helgi, sem situr m.a. í stjórn knattspyrnufélagsins Víkings, hefur auk þess verið fararstjóri, blaðamaður, þáttastjórnandi í sjónvarpi og kennari, samhliða öðrum störfum. Helgi er kvæntur Ásu Björgu Tryggvadóttur og eiga þau þrjú börn.

Hjalti Jónsson, framkvæmdastjóri Íslensku auglýsingastofunnar segir:

„Það er ánægjulegt fyrir Íslensku að fá kraftmikinn aðila með fjölþætta reynslu úr íslensku atvinnulífi í hóp eigenda stofunnar. Helgi þekkir Íslensku frá fornu fari og við bjóðum hann velkominn heim aftur.“

Helgi Eysteinsson segir:

„Það er gríðarlega spennandi að koma inn í þennan sterka hóp af hæfileikaríku fólki sem fyrir er á Íslensku. Viðskiptavinahópurinn er fjölbreyttur og fyrirtækin eru metnaðarfull í sínu markaðsstarfi. Örar samfélags- og tæknibreytingar kalla á breytta hugsun í nálgun þeirra við viðskiptavini og það verður gaman að fá að taka þátt í að móta stofuna í takt við þessa þróun. Þekkjandi Íslensku sem starfsmaður á árum áður og sem viðskiptavinur hin síðari ár, er ég fullur tilhlökkunar að takast á við þau spennandi og krefjandi verkefni sem framundan eru.“