„Það er alltaf verið að tala um sömu hlutina og því verki miðar seint að endurreisa efnahagslífið. En samt er von. Ég fór því út í þetta í þeirri von að hreyfa við fólki,“ segir Helgi Magnússon, fyrrverandi formaður stjórnar Samtaka iðnaðarins og Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Helgi hefur í gegnum tíðina verið með beinskeyttustu greinahöfundum- og ræðumönnum. Hann hefur nú tekið saman ræður sínar og greinar frá árinu 2007 til þessa árs í bók undir heitinu: Hvað sagði ég?

Hafði ekki trú á að fólk myndi kaupa bókina

Upplagið telur 800 eintök og gefur Helgi bókina út sjálfur. Bókin er ekki til sölu heldur hefur Helgi sent hana ættingum, vinum samstarfsmönnum, samferðafólki í gegnum tíðina og hópi áhrifamanna að gjöf. „Ég hafði enga trú á að nokkur myndi kaupa svona bók,“ segir Helgi um ástæðu þess að hún er ekki til sölu. Hann sendir bókina til viðtakanda og er hvert eintak stílað á nafn þess sem á að fá hana. „Ég er langt kominn með að gefa allt upplagið,“ segir hann.

Helgi segir í samtali við VB.is segir það ekki hafa verið mikið verk að taka greinarnar saman. Hitt hafi verið erfiðara, þ.e.a.s. viðbrögð við greinum hans og ræðum, hvort heldur er á prenti, í formi tölvuskeyta og smáskilaboða sem Helga bárust við þeim. Það gefur jafnframt bókinni aukið vægi og dýpkar mjög á umræðuna að lesa viðhorf lesenda til þess sem Helgi hefur skrifað í gegnum tíðina. „Það sem helst kom mér á óvart var hvað þetta var mikið efni,“ segir hann í samtali við VB.is.

Vonbrigði eftir hrun

Helgi segir að sem formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna og Samtaka iðnaðarins hafi hann talað fyrir auknum hagvexti, minna atvinnuleysi og gegn skattpíningu. Því vilji hann halda áfram og það hafi leitt til þess að hann tók efnið saman í bók. Þetta endurspeglast í formála bókarinnar. Þar segist hann hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með það hvernig tíminn hafi verið nýttur frá haustinu 2008 þegar efnahagslífið fór á hliðina. Á móti hafi uppgangur í ferðaþjónustu, sjávarútvegi og ýmsum greinar iðnaðar bjargað því sem hægt var.

Hvað Sagði ég?
Hvað Sagði ég?
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Helgi Magnússon gefur sjálfur út bók með eigin greinum og ræðum. Viðbrögð við skrifum Helga gefur bókinni aukna dýpt.