„Ef ég væri lítill hluthafi í Eik þá væri ég svolítið hugsi núna,“ segir Helgi S. Gunnarsson, forstjóri fasteignafélagsins Regins, spurður út í álit á því að Arion banki hafi farið þess á leit við stjórn Eikar fasteignafélags að fram fari könnunarviðræður við Landfestar um samruna. Markmið viðræðna er að leggja mat á kosti og galla sameiningar Landfesta og Eikar auk þeirra fasteigna sem Eik fasteignafélag fyrirhugar að kaupa af félaginu SMI ehf.

Eins og VB.is sagði frá í dag kemur málið þvert ofan í yfirtökutilboð Regins til hluthafa Eikar upp á rétt rúma átta milljarða króna sem lagt var fram í byrjun mánaðar. Fasteignir SMI eru undanskildar tilboði Regins. Helgi segir ekki ljóst nú hversu margir hluthafar Eikar hafi tekið tilboðinu. Tilboðið á að standa fram á föstudag. Helgi segir það verða óbreytt þrátt fyrir tíðindi dagsins.

Segir bankana ráðandi á markaðnum

Helgi bendir á að ef af verður muni Arion banki verða meirihlutaeigandi í sameinuðu félagi með í kringum 60% hlut. Arion banki á 39% hlut í SMI og 100% hlut í Landfestum. Helgi segir ljóst að Arion banki sé með viðræðunum að verja hagsmuni sína í SMI í gegnum Landfestar. Lífeyrissjóðir eru hins vegar stórir hluthafar Eikar fasteignafélags.

Hann er gagnrýninn á viðræðurnar og hugsanlega sameiningu Landfesta og Eikar ef af þeim verður.

„Þetta sýnir hvað bankarnir eru ráðandi í viðskipta- og atvinnulifinu,“ segir hann og telur tilburði Arion banka í þessa átt í andstöðu við þau skilyrði sem samkeppnisyfirvöld hafi reynt að setja bönkunum svo þeir verði ekki ráðandi á markaðnum.