„Við höfum beðið Ríkisendurskoðun um að aðferðir Umboðsmanns skuldara við útreikninginn til að tryggja sem allra best að fólk geti treyst þeim niðurstöðum sem reiknivélin skilar,“ segir Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sem samþykkti á fundi sínum í morgun að fá umboðsmann til að búa til reiknivél sem fólk getur notað til að reikna út stöðu gengislána sinna miðað við ákveðnar forsendur, .s.s. miðað við dóm Hæstaréttar frá í síðustu viku.

Það voru þingmennirnir Guðlaugur Þór Þórðarson, Pétur Blöndal og Lilja Mósesdóttir sem lögðu fram tillögu þessa efnis. Guðlaugur hefur um nokkurt skeið verið með lánareikni á vefsíðu sinni, sem fólk getur notað.

Helgi áréttar að reiknivélar á borð við þær sem Umboðsmaður skuldara hefur verið fenginn til að setja saman geti alltaf verið með ákveðnum fyrirvara. Niðurstaðan ætti þó að geta gefið nokkuð glögga mynd af því hvað geti talist eðlilegur endurútreikningur.