Helgi Hjörvar hefur tilkynnt að hann ætli að bjóða sig fram sem formann Samfylkingarinnar. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Fyrir stuttu var ákveðið að flýta landsfundi og verður kosið um formann flokksins á fundinum. Fundurinn verður haldinn þann 4. júní nk.

Helgi segir það ljóst að vandi flokksins sé mikill, en fylgið hefur hríðlækkað undanfarið og mælist í kringum tíu prósent. Hann segir þó að kreppa jafnaðarmannaflokka sé ekki séríslensk, en kreppa Samfylkingarinnar dýpri en annars staðar þó hún sé runnin af sömu rótum. Fólk hafi orðið fyrir vonbrigðum að jafnaðarmenn, sem fulltrúar almennings hafi ekki talað harðar fyrir fólkið gegn fjármálaöflunum.