Helgi Hjörvar, þingmaður og formaður efnahags- og skattanefndar, segir að hér á landi sé alltaf verið að leysa sama vandamálið. Það sé að fleyta krónunni. Hann sagðist heyra áhyggjuraddir af því að samkvæmt nýbirtri áætlun um afnám hafta verði hér gjaldeyrishöft í allt að fimm ár. Helgi ítrekaði að það þýði ekki að þau verði í fimm ár, heldur allt að því.

Helgi hélt erindi á hádegisverðarfundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga í dag.

Hann sagði að óhjákvæmilega fylgi krónunni mikil óvissa. Því eigi að skoða að taka upp aðra mynt og minnti á stefnu Samfylkingarinnar um inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru. Það myndi draga úr óvissu um framtíð gjaldmiðilsins.

Helgi nefndi sex þætti sem þurfi að bæta til að Ísland sé samkeppnishæft. Hann sagði að árangur hafi náðst í að vinna úr gríðarlegum fjárlagahalla. Þá hafi skuldastaða ríkisins batnað þó skuldir séu enn háar. Verðbólgan hafi einnig lækkað. Um þætti er snúa að bankakerfinu nefndi Helgi aðgengi að fjármagni og kostnaðinn við lánsfé.