Pétur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík, var harðorður í garð stjórnmálamanna í ræðu sem hann flutti á opnum fundi Samtaka atvinnulífsins í Hörpu á föstudag fyrir viku. Þar gagnrýndi hann auknar álögur á sjávarútveginn og fyrirhugaðar kerfisbreytingar. Sagði hann þær grafa undan frekari verðmætasköpun í greininni og nýsköpun.

Í lok ræðu sinnar sagðist Pétur hafa stillt á Útvarp Latabæ á leið sinni í höfuðborgina þar sem verið var að spila Emil í Kattholti. Pabbi Emils hefði spurt hvort hann ætlaði nokkuð að fara að gera eitthvað af sér. Emil svaraði því til að hann vissi ekki að hann gerði eitthvað af sér fyrr en hann væri búinn að því. Pétur yfirfærði þetta á stjórnmálamennina og sagðist vona að þeir færu að komast til manns. Það sem Pétur gerði sér kannski ekki grein fyrir er að í hlutverki Emils í þessu leikriti var Helgi Hjörvar formaður efnahags- og viðskiptanefndar!

Helgi var sjálfur í salnum og hafði gaman af. Og ekki annað að sjá en að hann hefði komist til manns.

Huginn & Muninn birtust í Viðskiptablaðinu 15. nóvember 2012. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.