„Ekki vera svona morgunfúl yfir því að auka hér umsvifin í hagkerfinu,“ sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar sem sæti á í utanríkismálanefnd, vegna harkalegrar gagnrýni stjórnarandstæðinga á Alþingi í morgun á afgreiðslu svokallaðra IPA-styrki frá ESB.

Þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, og flokksbróðir hans Ásmundur Einar Daðason sögðu báðir ríkisstjórnina hafa beitt klækjabrögðum við afgreiðslu málsins. Þá sagðist Ásmundur hafa heimildir fyrir því að málið hafi verið afgreitt án fullskipaðrar utanríkismálanefndar í morgun þar sem formaður hennar hafi óttast að ekki væri meirihluti fyrir málinu.

Ragnheiður E. Árnadóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins sem sæti á í nefndinni, sagði Ásmund hafa rétt fyrir sér. Hún hafi mætt aðeins of seint á fundinn og hafi þá verið búið að afgreiða málið þrátt fyrir óskir hennar um að láta það bíða auk þess sem nefndin hafi ekki verið fullskipuð.

„Þetta er gamaldags klækjapólitík,“ sagði Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks.

Birgir Ármannsson, flokkbróðir þeirra, benti á að þótt ríkisstjórninni hafi tekist að koma IPA-málinu úr nefnd í morgunsárið þá eigi það eftir að leggja það fyrir þingheim. „Það kann að vera að sigurinn sé ekki unninn þótt þeir hafi gert það klukkan kortér yfir átta í morgun,“ sagði hann.

Helgi Hjörvar var hins vegar á öndverðum meiði og benti á að IPA-málið hafi verið afgreitt úr efnahags- og viðskiptanefnd, þar sem hann er í forsvari, fyrir mörgum mánuðum og hafi verið tímabært að afgreiða málið úr utanríkismálanefnd. Þá brýndi hann fyrir nefndarmönnum að mæta tímanlega á fundi, sömuleiðis þá sem haldnir eru að morgni dags.