„Þetta er afar óheppileg niðurstaða. Við þurfum á erlendri fjárfestingu og atvinnusköpun að halda,“ segir Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, um ákvörðun innanríkisráðuneytis að hafna beiðni kínverska fjárfestisins Huang Nubo um kaup á Grímsstöðum á Fjöllum.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra greindi frá ákvörðun ráðuneytisins á fundi ríkisstjórnarinnar í dag.

Niðurstaðan er þvert á vilja Samfylkingarinnar en þingmenn flokksins hafa margir lýst yfir stuðningi við fyrirhuguð kaup Nubos.

Helgi segir í samtali við netútgáfu Viðskiptablaðsins verkefni stjórnvalda hljóta að felast í því að vinna með þeim erlendu aðilum sem hingað vilji koma.

„Ég vona að við [innskot blm: þingmenn Samfylkingar og VG] náum sameiginlegri niðurstöðu um málið svo hægt verði að mæta ólíkum sjónarmiðum. Ég legg þess vegna ríka áherslu á það að þótt innanríkisráðherra hafi talið þetta lögformlega réttan úrskurð út frá lögum þá megi þetta ekki verða endapunktur í málinu. Það væru ákaflega vond skilaboð,“ segir hann og bætir við: „Það geta engin pólitísk prinsip legið að baki því að sumir útlendingar fái að kaupa eignir hér en aðrir ekki.“