Þingmenn eru loks komnir í sumarfrí eftir eitt lengsta þing sem sögur fara af. Þingmál hafa verið afgreidd á ljóshraða síðustu daga.

Viðskiptablaðið náði tali af Helga Hrafni Gunnarssyni, þingmanni Pírata, og spurði um fyrirætlanir hans um helgina.

„Ég er með tóma dagskrá, og ætla að hafa hana þannig,“ sagði Helgi. „Ég ætla bara ekki að skipuleggja nokkurn skapaðan hlut. Lífið bara siglir með mig áfram, hvert svo sem kvöldið fer og helgin.“

Á að djamma í kvöld?

„Ekkert frekar, ég sé bara til.“

Helgi segir að við þingstörfin hafi maður litla stjórn yfir eigin tíma. „Það besta við frí er að það sé ekkert á dagatalinu sem maður þurfi að gera, ekkert ákveðið fyrirfram. Ein mínúta í einu, ég sakna þess alveg rosalega.“