Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, mun taka við formennsku flokksins fyrir komandi þing sem hefst á morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum.

Þar segir að Birgitta Jónsdóttir hafi hlutverkaskipti við Helga Hrafn og hún verði því þingflokksformaður flokksins.

„Formennska í Pírötum er þó eingöngu formlegs eðlis vegna þinglegra prótócolla og hefur ekki í för með sér nein sérstök valdsvið eða ábyrgð. Þess vegna hefur formaður flokksins ávallt hafnað sérstöku launaálagi frá Alþingi fyrir formennskuna og mun Helgi Hrafn einnig hafna álaginu nú,“ segir í tilkynningunni.

Þá mun Jón Þór Ólason, þingmaður flokksins úr Reykjavíkurkjördæmi norður, yfirgefa þingið og Ásta Guðrún Helgadóttir koma í hans stað.