Spurður að því hvers vegna sumir eigi erfitt með að staðsetja Pírata á hinu pólitíska rófi segir Helgi Hrafn Gunnarsson, formaður Pírata, að það sé vegna þess að flokkurinn hafni opinberlega hægri, vinstri rófinu. Meðlimir flokksins séu í báðar áttir og á milli.

„Það er svolítið sérkenni ef maður skoðar hvernig stuðningsmenn og meðlimir flokka liggja, að þá eru vinstri menn stjórnlyndir og hægri menn frjálslyndir,“ segir Helgi. „En hjá okkur er þetta eiginlega vinstri frjálslyndir. Sem er óvenjulegt. En það er þannig. Og það held ég að sé vegna þess að það eru fleiri mál en þetta sem skipta máli. Það eru miklu fleiri ásar.

Spurningin um skatta, til dæmis, er spurning um nokkur gildi sem eru alveg mikilvæg. Það er bæði hversu mikið maður metur eignarréttinn í grunninn, og hvernig á að fjármagna kerfið með sem minnst villimannlegum aðgerðum. Að mínu mati er erfitt, og jafnvel ómögulegt, að útfæra skattheimtu sem er ekki einhvern veginn ömurleg á einhvern hátt. Þú þarft að neyða borgarana til að fylla út einhverja pappírsvinnu á hverju ári – hvað er það? Hvenær varð það í lagi að þú berir ábyrgð á pappírsvinnu fyrir ríkið?

Það er fráleitt að mínu mati, en það þarf að vera þannig, sem er það leiðinlega. Þú hótar að setja fólk á hausinn ef það gefur þér ekki einhverjar upplýsingar um sína persónulega hagi. Þetta er ekkert geðslegt. En þetta er nauðsynlegt,“ segir Helgi Hrafn.

Þú hefur tjáð þig um frelsi á internetinu, borgararéttindi og svo framvegis. Er frelsi einstaklinga þér hugleikið?

„Mjög hugleikið. Það er lykilatriði. Frelsi einstaklingsins er ein birtingarmynd þess grundvallaratriðis sem er sjálfsákvörðunarréttur. Hann felst í því að þú ákveður þau mál sem varða þig og varða ekki aðra. Til dæmis kynhneigð þína. Það er alveg sama hvað mér finnst um hana, það kemur mér ekkert við. Það er það einfalt, þetta er ekkert dýpri spurning í mínum huga.

Sömuleiðis, ef við erum hérna í einhvers konar félagi og ætlum að gera eitthvað saman, í hljómsveit eða eitthvað, þá tökum við sameiginlegar ákvarðanir, vegna þess að það varðar okkur báða. Þegar kemur að málefnum sem varða þjóðina í heild, eða stærri hópa, þá er bara sjálfsagt að þeir fái að ákveða sín mál. Það fyrirkomulag heitir lýðræði.

Það er vegna þess að þetta er í grunninn sjálfsákvörðunarréttur, sem ég set samasemmerki milli lýðræðis og einstaklingsfrelsis. Annað getur ekki lifað án hins að mínu mati. Þetta er sama fyrirbærið, bara í aðeins öðruvísi samhengi og öðrum skala.“

Myndirðu segja að þú værir frjálshyggjumaður?

„Sko. Ef þú kryfur orðið orðsifjalega þá, já. En ég aðhyllist ekki þann „-isma“ sem frjálshyggja í nútímaskilningi felur í sér. Ég ber alveg virðingu fyrir sjónarmiðinu. Ég hætti að kalla mig anarkista þegar ég áttaði mig á því að ég hef aldrei hitt tvo anarkista sem eru sammála um það hvað anarkismi er. En ég ber mikla virðingu fyrir heimspekinni á bakvið þetta og grunngildunum.

Ég er ekki sammála um að allt sé raunhæft sem þetta felur í sér. Sérstaklega er ég ekki trúaður á það að frjáls markaður geti leyst öll þau vandamál sem frjálshyggjumenn jafnan telja hann geta gert. Sömuleiðis tekur frjálshyggja að mínu mati ekki nægilega vel á því að við búum í mjög ófullkomnum heimi, þar sem annars fáguð, einföld og þægileg kerfi, eins og frjáls markaður til dæmis, gera ekki ráð fyrir öllum brestum mannkyns, sem eru veigamiklir.“

Ítarlegt viðtal við Helga Hrafn er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .