Mikið hefur verið deilt um bréf sem Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra afhenti lettneskum starfsbróður sínum Edgar Rinkevic til formennsku Evrópusambandsins og framkvæmdastjórn þar sem tilkynnt er að ríkisstjórn Íslands hafi samþykkt á fundi sínum sl. þriðjudag að hún hafi ekki í hyggju að taka upp aðildarviðræður við ESB á nýjan leik.

Stjórnarandstaðan sendi bréf föstudaginn síðastliðinn til að greina Evrópusambandinu frá því að ríkisstjórnin hafi hvorki umboð þings né þjóðar til að breyta stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu með þeim hætti sem tilkynnt er í bréfi utanríkisráðherra til Evrópusambandsins. „Þarna eru þeir náttúrulega bara enn og aftur að beita Evrópusambandið blekkingum. Því að það er alveg ljóst að við höfum fullt umboð og leyfi til þess að gera þetta með þessum hætti,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanrríkisráðherra í gær í samtali við RÚV um bréf stjórnarandstöðunnar.

Helgi Hrafn Guðmundsson þingmaður Pírata sagðist mjög ósáttur við ákvörðun ríkisstjórnarinnar í viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandi í morgun. Þar sagði hann að ákvörðunin væri atlaga að þingræðinu. „Það að ætla núna að sniðganga þingið er algjörlega óverjandi og það kemur ekki til greina fyrir alþingi að sitja hjá og líta svo á að þetta sé í lagi, að þetta sé eitthvað minniháttar mál sem ekki eigi heima hjá þinginu. Það má segja mjög margt gott um Einar K. Guðfinnsson en hann hefur algjörlega brugðist þinginu í þessu máli og við munum ræða þetta mál að sjálfsögðu og með okkur á ég við alla stjórnarandstöðuna og að ég tel einhverja stjórnarmeðlimi líka,“ sagði Helgi Hrafn í viðtalinu og bætti því við að flokkur hans hefði íhugað vantrauststillögu á hendur utanríkisráðherra.

Mótmæli í dag

Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli í dag kl. 14:00 undir yfirskriftinni Lýðræði eða gerræði. Þar verður ákvörðun ríkisstjórnarinnar mótmælt en um 5.500 manns hafa boðað komu sína á mótmælafundinn á Facebook.